Meistaradeildin skorar á stjórnendur verknámsskóla

Meistaradeild Samtaka iðnaðarins, MSI, skorar á skólastjórnendur verknámsskóla að veita þeim nemendum forgang í iðnnám, sér í lagi við innritun í kvöldskóla, sem hafa lokið hluta starfsnáms og/eða starfað í iðngrein sæki þeir um að hefja eða ljúka námi í viðkomandi iðn. Þetta kemur fram í bréfi sem MSI hefur sent skólastjórnendum verknámsskóla. Það sama eigi við um þá aðila sem farið hafa í gegnum raunfærnimat og sækja um skólavist til að ljúka formlegu námi. Væri þessi að gerð til þess fallin að fjölga iðnmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði og mæta brýnni þörf iðnfyrirtækja.

Í bréfinu segir að í „Skýrslu starfshóps um innritun í starfsnám á haustönn 2022“, komi fram að þeim sem hafnað hafi verið um skólavist í starfsgreinum séu flestir eldri en 19 ára. Í húsasmíði og grunnnámi bygginga- og tæknigreina sé hlutfall 30 ára og eldri 37%. Á sama tíma sé mikil eftirspurn á vinnumarkaði eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Að mati stjórnar MSI sé hér um skýra skekkju að ræða sem nauðsynlegt sé að bregðast við sem fyrst.

Endurskoða þurfi aðferðafræði við úthlutun á skólavist
Þá kemur fram í bréfinu að við innritun í kvöldskóla sé algengasta reglan sú að „fyrstur kemur fyrstur fær“ sem hafi í raun þau áhrif að ekki sé forgangsraðað í námið í þágu þeirra sem séu að reyna að ljúka námi til starfsréttinda eða séu nú þegar starfandi án réttinda í viðkomandi iðn og vilji öðlast viðeigandi réttindi. Þessa aðferðarfræði við úthlutun á skólavist þurfi að mati stjórnar MSI að endurskoða.

Jafnframt segir í bréfinu að þar sem kvöldskólar eða dreifinám séu í boði hafi það verið aðgengilegasta skólaleiðin fyrir þá einstaklinga sem séu komnir með fjölskyldu og séu að reyna að ná sér í réttindi í faginu sem þeir séu starfandi við. Einstaklingar sem hafi farið í raunfærnimat þurfi jafnframt raunhæfar leiðir til að ljúka námi í samræmi við niðurstöður raunfærnimatsins. Breytt forgangsröðun gæti komið fjölmörgum einstaklingum hratt og örugglega út á vinnumarkaðinn með full réttindi.

Undir bréfið skrifa Jón Sigurðsson, formaður MSI, og Sævar Jónsson, varaformaður MSI.