„Ummæli hennar í minn garð eru röng“
Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, segir yfirlögfræðing SI taka ummæli hans um SI og önnur fagfélög úr samhengi og það gegn betri vitund sem er það sama sem Lilja Björk yfirlögfræðingur sakaði hann um á mánudaginn.
„Við erum eina fagfélagið sem er að stefna ríkinu, ég er ekkert að gagnrýna hvað önnur fagfélög eru að gera, en við erum einir í þessu,“ segir Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, í samtali við mbl.is í kjölfar gagnrýni Lilju Bjarkar Guðmundsdóttur, yfirlögfræðings Samtaka iðnaðarins, í garð Böðvars sem hún setti fram í viðtali hér á vefnum á mánudaginn.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/11/10/ummaelin_rong_og_gegn_betri_vitund/
Gagnrýndi Lilja Björk þau ummæli Böðvars í Morgunblaðinu á laugardaginn harðlega að félag hans væri „eina fagfélagið sem er að reyna að verja meistarakerfið á meðan öll hin fagfélögin og Samtök iðnaðarins sitja hjá“ og kvað þau hvort tveggja röng og sett fram gegn betri vitund.
„Þessi ummæli hennar í minn garð eru röng og tekin úr samhengi gegn betri vitund,“ segir Böðvar og heldur áfram.
„Ég er sammála Lilju Björk að öllu leyti um mikilvægi meistarakerfisins. Umrætt viðtal við mig í Morgunblaðinu snerist þó á engan hátt um ötula vinnu SI að framþróun íslenska meistarakerfisins.
Ekkert formlegt meistaranám í Póllandi
Segir hann það felast í orðum sínum um að félag hans sé eina fagfélagið sem reyni að verja meistarakerfið á meðan hin félögin og SI sitji hjá, að tilgangur Félags pípulagningameistara sé að efla samvinnu meðal pípulagningameistara, stuðla að menningu og menntun stéttarinnar og gæta hagsmuna félagsmanna.
„Stjórn félagsins fékk fregnir af því að pólsk meistararéttindi í pípulögnum hefðu verið metin jafngild íslenskum meistararéttindum. Stjórnin kynnti sér málið og niðurstaðan var sú að í fyrsta lagi er ekkert formlegt nám í Póllandi til útgáfu meistarabréfs í pípulögnum. Í öðru lagi eru meistararéttindi í Póllandi veitt ef einstaklingur stenst próf sem fagfélög halda og þau fagfélög bjóða upp á námskeið til undirbúnings prófsins,“ segir Böðvar.
Staðan á Íslandi sé hins vegar allt önnur
„Einstaklingar þurfa að útskrifast úr meistaraskóla sem telst viðbótarnám við framhaldsskóla samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Samkvæmt ákvæðinu er námið í boði í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi, ráðherra staðfestir námsbrautarlýsingu og námið er metið í einingum,“ heldur formaðurinn áfram.
Leiðin að meistararéttindum í Póllandi sé því allt önnur og styttri en hér á landi og augljóst að mati Böðvars að nám í Póllandi, sem er óformlegt og ekki hluti af skilgreindri námsleið, geti ekki talist jafngilt.
„Alvarlegt er að minnka kröfurnar til meistara í ljósi þeirra ríku réttinda sem þeir hafa og þeirrar ábyrgðar sem þeir bera,“ segir hann.
SI vildu ekki vera skrifuð fyrir kærunni
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í viðtalinu við Böðvar á laugardaginn hefur félag hans nú stefnt ríkinu fyrir útgáfu meistarabréfsins til pólska pípulagningamannsins.
„Félagið leitaði leiða til að hnekkja ákvörðun sýslumanns um útgáfu meistarabréfs, en án árangurs. Ítrekað var leitað til sýslumanns, ENIC-NARIC-skrifstofunnar, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og ráðuneytisins, en félaginu var ekki svarað,“ segir Böðvar af undanfara stefnunnar.
„Á þessum tíma var félagið innan SI sem aðstoðaði það við að útbúa kæru til ráðuneytisins. Stjórn félagsins vann að kærunni í samstarfi við lögfræðinga og fulltrúa SI, sem meðal annars kynntu sér menntakerfið í Póllandi. Þegar kæran var tilbúin og senda átti hana inn til ráðuneytisins vildi SI ekki vera skrifað fyrir kærunni. Félag pípulagningameistara varð því að senda hana inn í sínu nafni, sem var miður, því það hefði verið sterkara ef SI hefði tekið slaginn fyrir fagfélögin,“ útskýrir Böðvar.
Félagið sagði sig úr SI í kjölfar kosningar
Kæran var að sögn formannsins send inn 21. nóvember 2024 og eina svarið sem borist hafi frá ráðuneytinu hafi verið að málið væri „flókið“.
„Undir venjulegum kringumstæðum tekur um 30 daga að fá svör við erindum til ráðuneyta og þetta er dæmi um virkilega lélega stjórnsýslu, jafnvel líklegt brot á stjórnsýslulögum. Nú, tæpu ári síðar, var það eina í stöðunni að stefna ríkinu. Félagið er knúið til að leita réttar síns fyrir dómstólum,“ segir Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, en þess má geta að félagið gekk formlega úr SI í byrjun þessa árs eftir kosningu félagsmanna.

