piparinn@piparinn.is

Netfang

Fréttir

Stéttin sem ákveðið var að yfirgefa

Böðvar Ingi Guðbjartsson skrifar 

Þann 27. nóvember síðastliðinn sendi ég grein inn á Vísi: „Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið?“ HVIN-ráðherrann Áslaug Arna svaraði greininni daginn eftir með greininni „Pólitík í pípunum“. Hún gaf sér að þetta væri allt saman byggt á misskilningi, að um einangrað tilvik væri að ræða og að ég hlyti að skrifa greinina í annarlegum tilgangi þar sem við værum ekki flokkssystkini. Því miður er þetta enginn misskilningur; búið er að gjaldfella iðnnámið.

Málið snýst um breytingar sem hafa leitt til þess að iðnaðarmenn frá Austur-Evrópu þurfa ekki að þreyta sama iðnnám og íslenskir iðnnemar en fá samt sitt nám metið til jafns við okkur Íslendinga. Íslenska meistarabréfið er tveggja ára nám sem veitir starfsleyfi í lögverndaðri iðngrein ásamt því að mega taka nemendur á námssamning. Í Austur-Evrópu nægir hins vegar að sitja eitt helgarnámskeið og er það nú borið að jöfnu við okkar meistarabréf.

Breytingin átti sér stað árið 2024 þegar þáverandi HVIN-ráðherra, Áslaug Arna, fól nýrri skrifstofu sem hún stofnaði, ENIC/NARIC (E/N), að meta menntun erlendra iðnaðarmanna. Í dag eru því meistarabréf frá Austur-Evrópu komin á lista hjá sýslumanni sem viðurkennd prófskírteini, og þeir sem hafa meistarabréf frá Austur-Evrópu geta fengið íslenska meistarabréfið. Búið er að benda sýslumanni á að þetta stangist á við lög, en sýslumaður sinnir ekki skyldum sínum og neitar að beita sér í málinu – þó svo að lög kveði á um að sýslumaður eigi að kanna réttmæti gagna.

Þetta er auðvitað stórfurðulegt mál, og eftir að ég vakti athygli á þessu í nóvember hafði blaðamaður frá Morgunblaðinu samband við mig. Hann vildi vekja máls á þessari gjaldfellingu iðnnáms, var sammála að þetta væri fáránlegt og vildi gera frétt úr málinu. Tónninn breyttist þó skyndilega þegar ég nefndi að Áslaug Arna ætti hlut að máli. Það kom smá þögn í samtalinu og síðan var sagt: „Heyrðu… ég ætla að skoða málið aðeins betur og verð svo í sambandi.“ Það kemur kannski fáum á óvart að ég bíð enn eftir að blaðamaðurinn hringi aftur í mig.

Stéttin sem Sjálfstæðisflokkurinn kaus að yfirgefa þarf núna að gera upp við sig hvort Sjálfstæðisflokkurinn, sem áður kenndi sig við stétt með stétt, sé sá flokkur sem passar upp á hagsmuni okkar iðnaðarmanna.

Í mannvirkjagerð hér á Íslandi starfa tugir þúsunda, og þar er fjöldinn allur af atkvæðum sem allir flokkar ættu að hafa hugfast þegar næst verður kosið í Alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjarlægst iðnaðarstéttina með því að gjaldfella íslenska iðnnámið. Iðnaðarmenn fylgjast því grannt með því hver verður næsti formaður Sjálfstæðisflokksins og hver afstaða nýs formanns verður til íslenskra iðnaðarmanna.

Ég minntist á það hér í upphafi að í svargrein sinni sagði Áslaug Arna að ég færi með fleipur og þetta væri einangrað atvik. Staðreyndin er hins vegar sú að nýverið fór hópur íslenskra iðnaðarmanna saman til Austur-Evrópu og sat umrætt helgarnámskeið. Þeir eru komnir með meistarabréf frá Austur-Evrópu og geta nú fengið íslenska meistarabréfið með því að framvísa því erlenda.

Aðför Sjálfstæðisflokksins að stétt íslenskra iðnaðarmanna mun seint gleymast.

Höfundur er formaður Félags pípulagningameistara.

Svar FP við svari ráðherra

Pólitík í pípum sem leka

Böðvar Ingi Guðbjartsson skrifar 

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (HVIN), sem einnig á sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, notar stöðu sína í pólitískum tilgangi á síðustu dögum kosningabaráttunnar og snýr hlutunum á hvolf með svari sínu við grein um iðnnám.

Eitt af því sem er rétt í grein HVIN er að hún hefur engu breytt varðandi kröfur iðnnáms hér á Íslandi.

Breytingin sem hefur hins vegar átt sér stað er að helgarnámskeið í Austur-Evrópu er lagt að jöfnu við tveggja ára meistaraskóla hér á Íslandi. Málarekstur í þessu máli byrjaði löngu áður en ég var beðinn um að taka sæti á framboðslista. Ráðuneytið veit það vel.

HVIN hefur vitað af málinu í nokkra mánuði án þess að bregðast við. Einnig er búið að kæra málið til HVIN. Grein ráðherra er fyrir neðan virðingu ráðherra og stjórnmálamanns að gefa í skyn að störf mín fyrir Félag pípulagningameistara séu í flokkspólitískum tilgangi.

ENIC/NARIC, sem er í boði HVIN, tekur það skýrt fram að þau ætla ekki að taka mark á neikvæðri umsögn frá Iðunni fræðsluseturs þar sem skýrt er tekið fram að ekki sé hægt að bera að jöfnu tveggja ára nám í meistaraskóla hér á Íslandi vs. helgarnámskeið í Austur-Evrópu. Samtök iðnaðarins telja að þarna sé vegið að iðnnámi Íslendinga. Með þessu nær hugtakið inngilding nýjum hæðum hér á Íslandi við það að bjóða fólk velkomið inn í samfélagið á jafnræðisgrundvelli og í þessu tilfelli inn á vinnumarkaðinn þar sem íslenskum iðnaðarmönnum er mismunað sakir þjóðernis.

Ef þetta fær að staðast geta nýútskrifaðir iðnsveinar á Íslandi gert þá kröfu að fá einnig afhent meistarabréf þó að þeir hafi ekki farið í meistaraskóla. Það má ekki mismuna iðnaðarmönnum á grundvelli þjóðernis.

Iðnmenntað fólk frá Íslandi á heimtingu á að vita af hverju ráðherra iðnaðarmanna, HVIN, stendur ekki með sínu fólki og að farið sé að lögum í landinu.

Kosningarnar á laugardaginn skipta miklu máli og að þeir sem fara með völdin í landinu standi með sínu fólki.

Iðnaðarmenn koma til með að kjósa þann flokk sem stendur vörð um hagsmuni iðnaðarmanna sem eiga samleið með hagsmunum neytenda sem þiggja þjónustu iðnaðarmanna.

Höfundur er formaður Félags pípulagningameistara.

Ráðherra svarar FP

Pólitík í pípunum

Grein á visir.is 28.11.2024

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifar 

 

Formaður félags pípulagningameistara, sem einnig á sæti á framboðslista Miðflokksins, notar stöðu sína í pólitískum tilgangi á síðustu dögum kosningabaráttunnar og snýr hlutum á hvolf í nýlegri grein um iðnnám. Grein hans er í besta falli mjög misvísandi en mér er ljúft og skylt að svara henni málefnalega.

  • Engar áætlanir eða aðgerðir hafa verið í þá átt að slá af þeim kröfum sem við gerum til þess starfsfólks sem sinnir ákveðnum störfum, þá síst iðnaðarmönnum.
  • Ég hef engu breytt varðandi kröfur á undanförnum árum þó ég hafi einfaldað ferla almennt svo fólk sem hingað kemur og starfar með nám að baki sem sálfræðingar, læknar eða iðnaðarmenn geti starfað hér á landi. Ferlið hefur verið gert rafrænt og skýrt svo að fólk fái svör hvað því vantar upp á í stað þess að fá aðeins neitun frá kerfinu. Við höfðum áður fengið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA um að kerfið okkar uppfyllti ekki kröfur um skýrleika - hvergi væri að finna leiðbeiningar né upplýsingar á einum stað um kröfurnar sem eru gerðar til viðurkenningar á menntun eða hæfi, né um ferlið. Um það snerust breytingarnar.
  • Málið sem um ræðir snýst um pólskan pípulagningameistara sem lauk iðnmeistaraprófi samkvæmt þeim reglum sem gilda í heimalandinu og sótti um meistarabréf hér á landi. Umsóknin fór hefðbundna leið frá ENIC NARIC (E/N) skrifstofunni til IÐUNNAR-fræðsluseturs (þar sem fulltrúar SI sitja - þar eru fagaðilarnir sem leggja mat) sem veitti jákvæða umsögn um erindið. E/N afgreiddi erindið skv. þeirri niðurstöðu. Síðar var beðið um breytingu á því án rökstuðnings. Ráðherra stígur ekki inn í slíkt og hefur ekki heimildir til þess fyrr en það koma efnislegar athugasemdir og kæra, þá kemur það til meðferðar til ráðuneytisins. Ekki er hægt að tjá sig nánar um einstök mál.

Ég hef alltaf staðið með iðnmenntun og iðnaðarmönnum og ætla því ekki að sitja undir ámælum um annað. Eitt fyrsta frumvarpið mitt sem óbreyttur þingmaður var að greiða leið iðnmenntaðra í háskóla, til þess að eyða þeirri mýtu foreldra að börnin þeirra þyrftu stúdentspróf til að geta menntað sig meira. Ég hef alltaf verið skýr um hve mikilvægt er að menntakerfið svari eftirspurninni eftir iðnnámi og að menntakerfið mennti fyrir samfélagið og ekki síst atvinnulífið, að eldri nemendur fái pláss í kvöld- og helgarnámsskeiðum og svo framvegis. Það er partur af menntastefnu Sjálfstæðisflokksins.

Kosningarnar á laugardaginn skipta miklu máli, ekki síst fyrir harðduglegt vinnandi fólk. Það fólk situr nú undir ámæli frá Samfylkingunni sem vill skattleggja það meira en nú þegar er gert. Formaður Félags pípulagningarmanna ætti að frekar að verja kröftum sínum í að verjast þeim skattahækkunum sem kunna að vera framundan ef vinstri menn setjast hér við völd. Það eru gild rök fyrir því að píparar, smiður, rafvirkjar, hárgreiðslumeistarar, bakarar og aðrir iðnaðarmenn stofni einkahlutafélag utan um þjónustu sína eða rekstur. Við skulum gera fólki kleift að skapa, taka áhættu og ná árangri í störfum sínum. Við eigum fyrst og fremst að bera virðingu fyrir vinnandi fólki og mikilvægu framlagi þess til samfélagsins. En ekki boða „plön” sem þeim er síðan ætlað að greiða fyrir með hærri sköttum.

Til þess þurfum við ríkisstjórn á hægrivæng stjórnmálanna og eina leiðin til þess er að Sjálfstæðisflokkurinn verði stærri á laugardaginn.

Höfundur er ráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður.

Image
Félag Pípulagningameistara eru hagsmunasamtök löggildra pípulagningarmeistara sem eru meðlimir.
Stórhöfði 29, 110 Reykjavík
Sími: 
Netfang: piparinn@piparinn.is